Viðurkenningar og styrkir

2018

Kæru forráðamenn, vinir og velunnarar Tónstofunnar.

Auðmjúk, hrærð, stolt, glöð og innilega þakklát tók ég á móti riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn að Bessastöðum þann 17. júní sl. Orðan er viðurkenning á starfinu í Tónstofunni og ég geri mér grein fyrir þeim mikla heiðri sem felst í því að vera í hópi þeirra sem fá riddarakrossinn fyrir störf sín í þágu samfélagsins. Ég hef verið mjög lánsöm í starfi og í kringum mig og Tónstofuna eru frábærir samkennarar, öflugir stuðningsmenn og velunnarar, þakklátir foreldrar og hæfileikaríkir nemendur. 

Ég upplifði tilfinningaþrungna stund á Bessastöðum með foreldrum mínum, bróður og frænda og Gunnhildi Gísladóttur gjaldkera Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar.  

Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu mun vísa okkur áfram veginn og hvetja til góðra verka sem stuðla að jöfnuði og betra samfélagi. 

Til ykkar allra ónefndu velunnarar Tónstofunnar, innilegar þakkir og kærleikskveðja.
Valgerður

35479353_10157389308359989_8268008294740656128_n.jpg
35821833_10157389308054989_7133468545786052608_n.jpg
35552087_10157389308034989_7392359313144020992_n (1).jpg

 

2016

Tónstofa Valgerðar og Bjöllukórinn, hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga í gegnum árin. Við þökkum nú sérstaklega Umhyggju – félagi langveikra barna, Listasjóði Rannís, Sunnusjóði og Velferðarsjóði barna sem styrkt hafa Tónstofuna og nemendur hennar á þessu almanaksári. Einnig þökkum við Önnu Björgu Halldórsdóttur, Súsönnu Ernst Friðriksdóttur og Sigurbirni Magnússyni sem glatt hafa okkur með góðum gjöfum. Forráðamenn Tónstofunnar og nemendur hennar þakka ómetanlegan stuðning og velvild sem auðveldað hefur baráttuna fyrir jafnrétti til náms.

2012

Tónstofan tók  á móti heiðursverðlaunum frá Velferðarsjóði barna í desember 2012 fyrir störf í þágu fatlaðra barna. 

2010

Tónstofa Valgerðar og Bjöllukórinn voru handhafar Kærleikskúlu SLF árið 2010. Um handhafa kærleikskúlunnar segir á vef SLF: „Valgerður hefur með óeigingjörnu starfi sínu gefið fjöldanum öllum af nemendum með sérþarfir kost á að njóta tónlistarnáms og þannig endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Bjöllukórinn hefur þau tólf ár sem hann hefur verið starfandi gefið þeim sem í honum eru mikla gleði og ekki síður þeim sem hafa notið þeirrar gæfu að hlýða á hann.“

2010

Tónstofan var tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010 í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar. Í þessum flokki koma allir þeir til greina sem hafa unnið eftirtektarvert starf í þágu menntunar, uppfræðslu eða umönnunar þeirrar kynslóðar sem er að vaxa úr grasi, jafnt einstaklingar sem samtök eða stofnanir.

2008

Tónstofa Valgerðar fékk Hvatningarverðlaun ÖBÍ árið 2008 í flokknum fyrirtæki fyrir frumkvöðlastarf í þágu nemenda með sérþarfir.

1999

Tónstofan hlaut viðurkenninguna Múrbrjótinn frá Landssamtökunum Þroskahjálp 1999 fyrir brautryðjandastarf sitt í tónlistarkennslu fatlaðra. Við afhendingu viðurkenningarinnar sagði formaður samtakanna Halldór Gunnarsson m.a.: „Verðlaunagripurinn Múrbrjóturinn vísar til þess slagkrafts sem viðkomandi stofnanir eða einstaklingar búa yfir. Múrbrjótar okkar í dag hafa ráðist að þeim félagslegu múrum sem gjarnan rísa í kringum fatlaða einstaklinga.“