Scan10002.JPG

Bjöllukór Tónstofu Valgerðar

Bjöllukórinn var stofnaður haustið 1997 af Valgerði Jónsdóttur skólastjóra Tónstofu Valgerðar. Meðlimir kórsins eru nemendur sem stunda tónlistarnám í Tónstofunni. Í einkatímum sínum leggja þeir stund á söng- eða hljóðfæranám af ýmsu tagi. Einu sinni í viku hittast þeir svo á bjöllukórsæfingu og leika þá á Suzuki tónbjöllur. 

Markmið Bjöllukórsins er að meðlimir hans þjálfist í að leika með öðrum, að þeir fái notið þess einstaka miðils sem tónlistin er og finni farveg fyrir tónræna hæfileika sína sjálfum sér og öðrum til ánægju. Á fyrstu árum kórsins voru meðlimir hans einungis sjö en í dag eru þeir tólf. Ásdís Ásgeirsdóttir, Auðun Gunnarsson, Gísli Björnsson, Gauti Árnason, Ólafur Snævar Aðalsteinsson, Edda Sighvatsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Rut Ottósdóttir, Ástrós Yngvadóttir, Hildur Sigurðardóttir, Erna Sif Kristbergsdóttir, og Íris Björk Sveinsdóttir. Bjöllukórinn hefur eflst ár frá ári og tekið þátt í spennandi verkefnum sem útheimta margskonar færni. Efnisskrá kórsins hefur einnig þróast og í dag leikur kórinn verk af ýmsu tagi í fallegum hljómsetningum eins og heyra má á diskunum „Hljómfang“ sem gefinn var út haustið 2012 í tilefni 25 ára starfsafmælis Tónstofunnar og 15 ára afmælis Bjöllukórsins og diskinum „Hljómvangur“ sem kom út 2017 í tilefni 30 ára starfsafmælis Tónstofunnar og 20 ára afmælis Bjöllukórsins. 

12339030_985619994810775_645236147_n.jpg

Segja má að Bjöllukórinn hafi verið framvarðasveit Tónstofunnar og í þau rúm tuttugu ár sem kórinn hefur starfað hefur hann leikið fyrir stofnanir, félagasamtök, skóla og fyrirtæki. Kórinn hefur einnig komið fram á listahátíðum og með öðru tónlistarfólki og má af þeim hópi nefna Svavar Knút, Möggu Stínu, Gunnar Gunnarsson, Högna Egilsson og hljómsveitirnar Sigur Rós og Retro Stefson. Bjöllukórinn tók þátt í setningu Listahátíðar í Reykjavík 2014 með Högna Egilssyni og var það mikið ævintýri. 

Tónstofan  ásamt Bjöllukórnum hefur tekið á móti fjölda viðurkenninga. Tónstofan og Bjöllukórinn var til að mynda handhafi kærleikskúlu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra árið 2010. Um handhafa kærleikskúlunnar segir á vef SLF: „Valgerður hefur með óeigingjörnu starfi sínu gefið fjöldanum öllum af nemendum með sérþarfir kost á að njóta tónlistarnáms og þannig endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Bjöllukórinn hefur þau tólf ár sem hann hefur verið starfandi gefið þeim sem í honum eru mikla gleði og ekki síður þeim sem hafa notið þeirrar gæfu að hlýða á hann.“

Vorið 2015 tók Bjöllukór Tónstofunnar þátt í Nordplus Junior verkefninu „Kenndu mér norræn og baltnesk barnalög“. Tapani Lakaniemi skólastjóri tónlistarskólans í Iisalmi Finnlandi hafði frumkvæði að þessu samstarfi. Í tengslum við verkefnið fékk Tónstofan og Bjöllukórinn, skólastjóra og kennara frá Lielvarde tónlistarskólanum í Lettlandi og Yla-Savo tónlistarskólanum í Iisalmi, Finnlandi í heimsókn. Sex gestir dvöldu hjá okkur í viku. Þeir hlustuðu á fyrirlestra um Tónstofuna og tónlistarsérkennslu, kynntu sér námsefni og kennsluaðferðir, fræddust um starfsemi Bjöllukórsins, skipulag tónlistarfræðslu á Íslandi og margt fleira. Þeir fylgdust með í kennslustundum og ræddu við nemendur, heimsóttu Klettaskóla og leikskólann Sólborg, fóru á tónleika í Hörpu, skoðuðu landið og ræddu framkvæmd samstarfsverkefnisins. Eftirtaldir aðilar fá kærar þakkir fyrir elskusemi og hlýjar móttökur þegar gestir Tónstofunnar heimsóttu Klettaskóla og Sólborg: Erla Gunnarsdóttir, Ólafur B. Ólafsson, Soffía Huld Friðbjarnardóttir, Guðrún Ásgrímsdóttir, Ragnheiður Þóra Kolbeins og Signý Þórðardóttir. 

Óhætt er að segja að hinir erlendu gestir hafi verið afskaplega ánægðir með það sem fyrir augu og eyru bar í heimsóknina, og alveg sérstaklega hrifnir af starfi Bjöllukórsins. Það verður svo spennandi að fylgjast með því á hvern hátt þeir nýta sér fræðsluna til uppbyggingar tónlistarsérkennslu í heimabæjum sínum. 

Átjánda febrúar 2015 fóru svo þrír kennarar Tónstofunnar í heimsókn til Lielvarde Music School, Lettlandi. Í Lielvarde nutum við frábærrar gestrisni lærðum af afburða kennurum, hlustuðum á finnskan og lettneskan barnakór, fórum á tónleika, heimsóttum stofnanir af ýmsu tagi og mynduðum tengsl við stofnanir og fagfólk. 

Hápunktur þessa Nordplus Junior samstarfsverkefnis var svo ævintýralegt tónleikaferðalag Bjöllukórsins ásamt kennurum og fylgdarliði til Iisalmi í Finnlandi dagana 22. til 27. apríl 2015. Ferðin til Iisalmi tókst afburðavel. Við sungum og lékum fyrir leikskóla- og grunnskólabörn og fullorðið fólk í dagvist fyrir fatlaða. Við fengum hljóðfærakynningu, hlýddum á tónleika sinfóníuhljómsveitar Jyväskylä, fórum í skógarferð, í gufubaðstofu, sána, og skoðuðum merka staði í Iisalmi. Bjöllukórinn lék einnig í messu í bænum Kuopio og á tónleikum ásamt finnskum og lettneskum barnakórum í Iisalmi. Þar flutti Bjöllukórinn 4 lög og sálma: Ó, faðir gjör mig lítið ljós eftir Jónas Tómasson, Nú hverfur sól í haf eftir Þorkel Sigurbjörnsson, þjóðlagið Bí, bí og blaka og Íslenskt vögguljóð eftir Jón Þórarinsson. Vil ég þakka Tapani Lakaniemi, stuðningsaðilum öllum, meðlimum Bjöllukórsins, kennurum og aðstoðarfólki kærlega fyrir að gera þessa ferð að sannkölluðu ævintýri. Hjartans þakkir færi ég einnig sjóði Kristins Arnar Friðgeirssonar, Össuri, Samfrímúrarareglunni og ónafngreindum velgjörðarmönnum sem auðvelduðu okkur kostnaðarsamt ferðalag. Síðast en ekki síst þökkum við svo stuðning frá Swedish Council for Higher Education – Nordplus Junior sem samþykkti verkefnið og gerði þátttöku okkar þar með mögulega. Við munum hagnýta okkur þessa dýrmætu reynslu í skólastarfi komandi ára. 

Starfsemi Bjöllukórsins og Tónstofunnar er einstök á landsvísu og þó víða væri leitað og við vorum stolt af því að geta miðlað af sérþekkingu okkar á erlendri grund. Bjöllukórinn lék af þeirri snilld sem honum er einum lagið og voru aðstandendur kórsins ákaflega stoltir af frammistöðu hans á tónleikunum og framgöngu allri í ferðinni. 

Hópmynd+af+tónleikum+29.+10.+2016.jpg

Í október 2016 tók Bjöllukórinn og Tónstofan þátt í Nordplus Junior samstarfsverkefninu „Share your national cultural heritage by art“ – Deilum menningararfinum í listsköpun ásamt Ylä-Savo music school í Finnlandi og Lielvarde Municipality Music and Art School í Lettlandi. Veglegir tónleikar voru haldnir 29. október í Grafarvogskirkju. Tónleikarnir voru afrakstur vikulangrar heimsóknar þar sem nemendur og kennarar æfðu saman, fræddust um og deildu menningararfi sínum, fóru á tónleika, sungu og léku í skólum og á öðrum stofnunum, skoðað landið og léku sér saman. Á tónleikunum í Grafarvogskirkju dönsuðu, léku og sungu kennarar og nemendur lög er tengdust jónsmessunni og sumarsólstöðum. Tónleikarnir tókust afburða vel og yljuðu tónleikagestum um hjartarætur. Að loknu þessu ævintýri þakkar undirrituð hjartanlega eftirtöldum aðilum fyrir veitta aðstoð og þjónustu: Elsku Álfheiði Erlu (stelpunni minni) fyrir myndbandið. Erlu Elíasdóttur (mömmu) fyrir allan baksturinn og eldhússtörfin. Gunnhildi Gísladóttur fyrir alla aðstoðina í eldhúsinu, keyrslu og umhyggjusemi. Hrönn Kristjánsdóttur fyrir pönnukökurnar. Jónu Þórsdóttur og fjölskyldu fyrir að lána okkur dýrmæta harmonikku. Fjölmennt fyrir að lána okkur fleiri harmonikkur. Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Júlíönu Rún Indriðadóttur fyrir lánið á tveimur harmoníum. Þorvaldi H. Þórðarsyni og Matvælastofnun fyrir aðgang að matsal á Stórhöfða. Jóni Bjarnasyni organista í Skálholtsdómkirkju fyrir að bjóða okkur í kirkjuna og að leika fyrir okkur. Grafarvogskirkju fyrir leiguna á kirkjunni til tónleikahalds. Hjá Höllu í Grindavík fyrir ljúffengan og vel útilátinn mat. Hópferðir fyrir liðlegheit og öruggan akstur um borg og sveit. Steindóri Guðmundssyni fyrir öruggan og lipran flutning með hljóðfærin. Hljóðfærahúsið fyrir lánið á hljóðkerfinu og Ara Agnarssyni fyrir að stjórna því. Reykjavíkurborg fyrir afslátt af kynningarpokunum „Reykjavík loves you“ Bjarkarási, Klettaskóla, Sóltúni og Breiðholtskirkju þakkar undirrituð hjartanlega fyrir ljúfar móttökur. Petri Herranen er þakkað fyrir skemmtileg spunanámskeið og Báru Grímsdóttur og Chris Foster fyrir vönduð og áhugaverð námskeið um þjóðlagaarfinn, söngtækni og langspilið. Christopher Lund fyrir upptöku af tónleikunum og fallegu mynd af hópnum.

45206666_2474505259258767_4469304188957884416_n.jpg


Ævintýri Bjöllukórsins halda áfram og á skólaárinu 2018-2019 tók hann þátt í verki Ólafs Ólafssonar og Libia Castro “Í leit að töfrum - Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland”, sem flytjendur. Tónverkið/listaverkið, sem er „verk í ferli og opinni framvindu“ verður samið með ólíka hópa og einstaklinga í huga, leika og lærða þátttakendur með ólíka getu og bakgrunn. Tónskáldin Karólína Eiríksdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir semja tónlistina við þær greinar stjórnarskrárinnar sem Bjöllukórinn fær að spreyta sig á. Við í Bjöllukórnum höfum notið okkar vel í þessu samstarfi. Við höfum kynnast nýrri tónlist og nýjum listamönnum, opnað kórinn fyrir nýjum flytjendum og lagt hönd á plóginn með bjöllunum okkar Í leitinni að töfrum. Verkefninu mun væntanlega ljúka með tónleikum á Listahátíð í Reykjavík 17. júní 2020. Hjartans þakkir Ólafur Ólafsson og Libia Castro.

18646164_807567052752488_6628538618371637248_n.jpg

 

í upphafi skólaársins 2019-2020 tók Bjöllukórinn þátt í tíu ára afmælishátíð Pascal Norge, sem fram fór í Gjövik í Noregi. Á tvennum tónleikum flutti kórinn tónlist eftir íslensk tónskáld. Kórinn naut sín einnig í skemmtilegri vinnusmiðju þar sem leikið var og sprellað, hann fór í skoðunarferð til Óslóar, og kynntist öðru tónlistarfólki á fernum tónleikum sem haldnir voru á hátíðinni.

69542377_10156622279520886_4369777208160419840_n.jpg

Bjöllukórinn kemur fram á opnunarhátíð Listar án landamæra í Gerðubergi 5. október 2019 og á lokatónleikum hátíðarinnar í Gerðubergi laugardaginn 19. október.

Bjöllu Kór-4.jpg