24. starfsár Tónstofunnar, veturinn 2010-2011

Í upphafi vorannar voru 72 nemendur í Tónstofunni. 46 nemendur með lögheimili í Reykjavík og 26 nemendur með lögheimili í nágrannasveitarfélögunum. Tveir kennarar störfuðu við skólann.

Samvinna við Öskjuhlíðarskóla hefur nú staðið í fjögur ár. Tónstofan nýtur þess að fá aðgang að tónmenntastofunni tvo daga í viku og sækir nú 21 nemandi tíma sína í skólanum. Tónstofan þakkar innilega fyrir velviljann sem hún mætir og vonar að samstarfið haldi áfram næsta vetur. Vegna breytinga í Öskjuhlíðarskóla er ómögulegt í lok vorannar að segja til um hvort og þá hvernig samstarfinu verður fram haldið. 

Tónstofan er að eignast nýja heimasíðu og er slóðin tonstofan.is Heimasíðan verður unnin í sumar og vonast er til að hún verði til gagns og gamans frá og með haustinu 2011. 

Tónstofan missti kæran nemanda, Kára Þorleifsson, 16. mars 2011. Styrktarsjóður Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar var stofnaður í minningu Kára sem var einn af meðlimum Bjöllukórsins og nemandi Tónstofunnar til margra ára. Frumkvöðlar að stofnun sjóðsins voru foreldrar Kára, þau Þorleifur Hauksson og Guðný Bjarnadóttir. Sjóðurinn er í vörslu Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar og aflar fjár með minningargjöfum. Markmið Styrktarsjóðsins er að styðja við og efla starfsemi Bjöllukórsins og Tónstofunnar. María Hr. Gunnarsdóttir tók að sér að hanna minningarkortið. Kortið prýðir myndin Vor eftir Kristínu Arngrímsdóttur.

María Hr. Gunnarsdóttir og Hörður Kristjánsson gáfu mininningargjöf um annan kæran nemanda, Alexíu Bertoluchi, sem lést 2010. Minningargjöfin rann í endurmenntunarsjóð Tónstofunnar. Þökkum við kærlega fyrir rausnarlegar gjafir þeirra til Tónstofunnar í fyrra og nú í ár, svo og gjafir annars sérstaks velunnara Súsönnu Ernst sem um árabil hefur fært Tónstofunni jólagjöf. Einnig þökkum við kærlega fyrir gjöf frá Oddfellowsystrum, stúkunni Þorgerði. Þær gáfu Tónstofunni 300 þúsund krónur sem nýttar voru til að kaupa ljósritunarvél og selló. Sérstakar þakkir fá einnig María Einarsdóttir og Ólafur Jónsson, sem gáfu Tónstofunni 100 þúsund krónur sem nýttar verða til útgáfu á hljómdiski með leik nemenda Tónstofunnar.

Á starfsárinu voru haldnir 7 tónleikar. Þar á meðal voru tónleikar í Ársafni og á opnum degi tónlistarskólanna.

Gert er ráð fyrir því að starfsemi Tónstofunnar skólaárið 2011-2012 verði með líku sniði. Ef spurningar vakna um starfsemi Tónstofunnar er fólk hvatt til að hafa samband með tölvupósti eða í síma.

Fyrir hönd kennara og Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar/Skólanefndar, þakka ég velgjörðafólki, skólastjórnendum Klettaskóla, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem og öllum nemendahópnum og aðstandendum hans innilega fyrir gefandi og ánægjulega samvinnu á þessu skólaári.

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri