Um skólann

Starfsemi og sérstaða Tónstofunnar
Tónstofa Valgerðar var stofnuð árið 1987 og er viðurkenndur tónlistarskóli. Tónstofan er rekin með samþykki menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Í Tónstofunni fer fram tónlistarsérkennsla fyrir nemendur sem geta ekki tileinkað sér hefðbundna tónlistarkennslu. Nemendur með sérþarfir njóta forgangs. Öll kennslan tekur mið af forsendum og þörfum hvers einstaks nemanda. Nemandi í Tónstofunni getur lagt stund á hefðbundið tónlistarnám. Hann getur einnig notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi hans og tónlistarfærni, bæta líðan hans og veita sköpunarþörfunni útrás. Í þessu felst sérstaða Tónstofu Valgerðar um leið og hún fylgir þeim meginmarkmiðum sem eru skilgreind í aðalnámskrá tónlistarskóla og skólanámskrá Tónstofunnar.

Kennsla fer fram í einstaklingstímum og fámennum hópum. Bjöllukór er starfræktur svo og söng- og hljóðfærahópar. Tónstofan er til húsa að Stórhöfða 23, 110 Reykjavík. Tónstofan hefur einnig starfsstöðvar í Hvassaleitisskóla, í Klettaskóla/frístundaheimilinu Öskju og í dagþjónustu Í Bjarkarási.

Námsefni og kennsluáætlanir
Námskrár gefnar út af menntamálaráðuneytinu eru hafðar til hliðsjónar í allri skipulagningu námsins. Kennsluáætlanir eru einstaklingsbundnar. Þetta þýðir að námsefni, tilhögun námsins, aðferðafræði og markmið eru löguð að þörfum hvers einstaklings. Sé þess kostur er stuðst við hefðbundið námsefni í tónlistarkennslunni, annars er námsefnið unnið af kennurum Tónstofunnar.

Tónleikar og próf
Tónstofan heldur opinbera tónleika í desember og í maí. Tónleikarnir eru prófsteinn á færni og framfarir nemenda. Þeir eru haldnir til að gefa nemendunum tækifæri til að koma opinberlega fram, veita öðrum hlutdeild í því sem þau eru að gera og gleðjast saman, og til að kynna skólastarfið. Nemendur Tónstofunnar koma einnig fram við önnur tækifæri, bæði opinber og í einkasamkvæmum. Bjöllukórinn hefur t.d. leikið fyrir: Listahátíð í Reykjavík, Barnaheill, Þroskahjálp, Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Kennaraháskóla Íslands, Sjónarhól, List án landamæra, hljómsveitina Sigur Rós, við guðsþjónustur í Grindavíkurkirkju, Grensáskirkju, Laugarneskirkju, í kirkju Óháða safnaðarins og hjá foreldrafélögum.

Nemendur sem eru þess megnugir taka stigspróf á hljóðfæri sín. Annars eru formleg stöðupróf ekki notuð til að meta árangur kennslunnar og framfarir nemenda. Sívirkt námsmat er samofið kennslunni og styðst við bæði formlegar og óformlegar kannanir. Þannig er sífellt verið að endurmeta námsáfanga til lengri og skemmri tíma og þróa árangursríkari kensluaðferðir.

Hagnýtar upplýsingar
Starfstími Tónstofunnar hefst um miðjan ágúst og stendur út júní. Námskeið á vegum Tónstofunnar eru einnig í boði utan hefðbundins skólatíma. Tekið er við umsóknum um skólavist á öllum tímum. Færri komast að en vilja og eru nemendur teknir inn af biðlista. Umsóknir eldri nemenda þurfa að berast fyrir maílok til að tryggja skólavist að hausti. Umsóknir um skólavist þurfa einnig að berast rafrænt til Tónstofunnar í gegnum vefinn Rafræn Reykjavík. Nemendur geta hætt án skuldbindingar hvenær sem er á skólaárinu. Frístundakortið má nýta til greiðslu skólagjalda.