Listasmiðja Tónstofunnar
býður upp á námskeið í listsköpun af ýmsu tagi en er jafnframt opinn rafrænn vettvangur þar sem hægt er að njóta, kynnast og taka þátt í list og listrænni tjáningu af ýmsu tagi. Í smiðjunni geta nemendur Tónstofunnar, vinir og aðrir áhugasamir ræktað hæfileika sína, eflt og notið sköpunargleðinnar og örvað ímyndunaraflið.

Allir fæðast með einstaka hæfileika til að skapa og til að njóta lista sem eflast við ástundun. Í listiðkun getum við notið fegurðar, lært að skilja veröldina, hugarheim og tilfinningar okkar sjálfra sem og annarra. List er ekkert mannlegt óviðkomandi og sem þátttakandi í henni getum við bætt lífsgæði okkar.

Hlutverk tónlistarskóla er að sinna nemendum á öllum aldri, börnum jafnt sem fullorðnum. Æskilegt er að skólarnir láti ekki við það sitja að taka við þeim nemendum sem til þeirra leita heldur ættu þeir að kynna starfsemi sína með markvissum hætti, leggja áherslu á nýbreytni í námsframboðum og fjölbreytni í starfi segir í aðalnámskrá tónlistarskóla. Listasmiðja Tónstofunnar er leið að því marki, námsframboð utan hefðbundins náms í tónlistarskóla þar sem áhersla er lögð á að hvetja skapandi einstaklinga til listrænnar tjáningar í öllum sínum fjölbreytileika. Þegar fram líða stundir munu námskeið, samstarfsverkefni, fyrirlestrar, kynningar af ýmsu tagi og nýsköpun líta dagsins ljós í Listasmiðju Tónstofunnar.

 
 
 
 
 



INNBLÁSTUR