STUTT GREINARGERÐ UM STARFIÐ SKÓLAÁRIÐ 2018-2019

Skólaárið og nemendafjöldi

Fyrsti kennsludagur haustannar 2018 var mánudagurinn 27. ágúst. Síðasti kennsludagur var miðvikudagurinn 29. maí. Skólaslit voru föstudaginn 31. maí. Við tóku starfsdagar þar sem m.a. hljóðfæri voru yfirfarin og safnað saman frá kennslustöðum Tónstofunnar. Nýja aðstaðan í Klettaskóla var skoðuð með Önnu Björk Kvaran forstöðukonu og skólastjórinn skrifaði greinargerð um liðið starfsár og starfsáætlun þess næsta.

Skólaárið 2018-2019 voru 130 nemendur í skólanum skráðir í grunn- og miðnám í tónlistarsérkennslu. Á skólaárinu sóttu tuttugu og fjórir námskeiðin „Tón-leikur“ og tuttugu og fjórir nemendur sóttu námskeiðin „Radd-leikur“. Sumir þátttakenda Tón- og Radd-leiks sóttu jafnframt einkatíma. Í Bjöllukórnum voru tólf nemendur sjö sóttu einnig einkatíma.

Kennarar, skólanefnd og annað starfsfólk

Á skólaárinu 2018-2019 störfuðu sjö kennarar í fjórum stöðugildum.

  • Valgerður Jónsdóttir, starfshlutfall 100% kennarastaða.

  • Marie Paulette Helene Huby, starfshlutfall 80% kennarastaða.

  • Jóna Þórsdóttir, starfshlutfall 100% kennarastaða / deildarstjóri (útibústjóri).

  • Ásrún I. Kondrup, 50% kennarastaða.

  • Kirstín Erna Blöndal, 25% kennarastaða.

  • Rakel Pálsdóttir, 25% kennarastaða. Hún sagði upp í nóvember 2018. Við nemendum hennar tók Mínerva M. Haraldsdóttir.

  • Ari Agnarsson, verktaki.


Stofnandi, ábyrgðaraðili og skólastjóri skólans er Valgerður Jónsdóttir. Hún gegnir jafnframt hluverki ritara og húsvarðar. Engin yfirbygging var í skólanum og rekstrarkostnaði hans því haldið í lágmarki.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegndi hlutverki skólanefndar. Í nefndina var kosið á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins að hausti.

Í nefndinni sátu á skólaárinu 2018-2019:

  • Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður

  • Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður

  • Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri

  • Dóra Eydís Pálsdóttir, ritari

  • Sólborg Bjarnadóttir, meðstjórnandi

  • Ásthildur Gyða Torfadóttir, meðstjórnandi

  • Fulltrúi kennara var dr. Valgerður Jónsdóttir

Um endurskoðun bókhalds og ársreikningaskil sá Haraldurd H. Helgason, viðskiptafræðingur Aðalbókun bókhaldsstofa ehf. haraldur@adalbokun.is Í byrjun september 2018 tók SBH þrif við ræstingu Tónstofunnar. Undirrituð gegndi því embætti áður allt frá stofnun skólans 1986/1987.

Styrkir á skólaárinu 2018-2019

Á starfsárinu þökkum við sérstaklega Súsönnu Ernst Friðriksdóttur sem enn á ný gladdi okkur með góðri gjöf um jól sem nýtt var til að kaupa hljómborð fyrir starfsstöð Tónstofunnar í Bjarkarási og annað sem nýtist í „hljóðveri“ skólans.

Í Styrktar- og minningarsjóð Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar bárust rausnarlegar minningargjafir vegna andláts Jóns R. Einarssonar, föður undirritaðar sem lést 9. september 2018. Sjóðurinn er í vörslu Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar.

Einnig þökkum við innilega fyrir aðrar gjafir svo sem: tímarit sem nýtast á biðstofunni, eplakassa sem nærði bæði kennara og nemendur, handsmíðað diddjeridoo, yndislegt myndverk frá Rut Ottósdóttur nemanda í Tónstofunni, námsbækur og fleira.

Innilegar þakkir færum við einnig öllu því góða fólki sem ekki er talið upp sérstaklega hér að ofan en sem í nafni stofnana, samtaka eða sem einstkalingar hafa styrkt Tónstofuna og eflt til dáða á liðnum árum.  Upplýsingar um viðurkenningar og styrki liðinna ára má sjá á heimasíðu skólans.

 Helstu viðfangsefni skólaársins 2018-2019

  • Starfsárið hófst með því að skólastjóri sótti ráðstefnu í Svíþjóð. Starfsfólk Tónstofunnar er hvatt til endurmenntunar og er gert ráð fyrir henni í starfsáætlun skólans. Starfsárinu mun ljúka með ferð tveggja kennara á ráðstefnu í Álaborg 24. til 30. júní.

  • Fimmta október kom Karólína Eiríksdóttir í heimsókn til Bjöllukórsins. Markmið hennar var að kynnast meðlimum kórsins og tónrænum möguleikum hans vegna þátttöku í „Stjórnarskrárverkefni“ listamannanna Ólafs Ólafssonar og Libia Castro „Leitin að töfrum – ný sjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland“. Karólína samdi tónlist við þær greinar stjórnarskrárinnar sem Bjöllukórinn flutti í október og flytja mun í júní á næsta ári.

  • Mánudaginn áttunda október lék Bjöllukórinn í Ráðhúsi Reykjavíkur við setningu ráðstefnunnar The International Short Break Association (ISBA) http://www.isba.me/about/ Leik Bjöllukórsins var ákaflega vel tekið og margir voru forvitnir um tónbjöllurnar okkar. Umræður sköpuðust um möguleika hljóðfærisins í tónsköpun fyrir ólíka hópa fólks.

  • Dagna 11. til 14. október var 20th Nordic Art Therapies Conference haldin á hótel Örk í Hveragerði. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Diversity within the Creative Arts Therapies“. Undirrituð var fengin til að halda einn af inngangsfyrirlestrum ráðstefnunnar. Fjallaði fyrirlesturinn um starfið í Tónstofunni og mikilvægi þess að kennarar, meðferðaraðilar og aðrir sem vinna með fólk geri sér grein fyrir því hvað skilgreinir þá sem manneskjur og sérfræðinga. Gísli Björnsson orgelleikari og einn af stofnendum Bjöllukórsins gladdi ráðstefnugesti með leik sínum á fyrirlestrinum.

  • Dagana 25. til 28. október var Bjöllukórinn þátttakandi í vinnusmiðju vegna Listahátíðarinnar Cycle sem opnuð var 25. október í Gerðarsafni, Hamraborg 4, Kópavogi. Yfirskrift hátíðarinnar 2018 var „Þjóð meðal þjóða“ og fjallaði á ögrandi hátt um fullveldi Íslands í samhengi við nýlendusöguna, sjálfsmyndir Íslendinga og fjölbreytni menningar á tímum fólksflutninga og hnattvæðingar. Bjöllukórinn lék í opinni vinnusmiðju ásamt öðrum flytjendum og tónskáldunum Aqqalu Berthelsen (Aka Uyarakq), Áka Ásgeirssyni, Danielle Dahl, Karólínu Eiríksdóttur, Stellan Veloce, Tyler Friedman og Þórunni Grétu Sigurðardóttur í verki Ólafs Ólafssonar og Libia Castro „In Search for Magic - A Proposal for a New Constitution for the Republic of Iceland“.

  • Mánudaginn 29. október var aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar haldinn. Stjórnin gaf öll kost á sér áfram og þökkum við henni kærlega fyrir trygglyndið og stuðning allan við Tónstofuna á liðnum árum.

  • Mánudaginn 12. nóvember tók Mínerva M. Haraldsdóttir til starfa í Tónstofunni. Hún tók við nemendum Rakelar Pálsdóttur sem hætti í 25% stöðu án mikils fyrirvara. Vorum við mjög lánsöm að Mínerva skyldi geta tekið við starfi Rakelar.

  • Föstudaginn 16. nóvember fengum við heimsókn frá þremur kennurum frá Slóveníu. Tadej Mraz Novak formaður slóvenska Orff Schulwerk félagsins og samkennarar hennar í grunnskóla í Ljubljana voru að afla sér upplýsinga vegna Erasmus Plus verkefnis „Teaching with Art - Teaching with Heart“ þar sem innflytjendum og nemendum með sérþarfir væri mætt með sérstökum kennsluaðferðum.

  • Bjöllukórinn lék við guðsþjónustu í kirkju Óháða safnaðarins sunnudaginn 25. nóvember.

  • Miðvikudaginn 5. desember lék Bjöllukórinn við afhendingu Kærleikskúlu SLF við hátíðlega athöfn að Kjarvalsstöðum.

  • Föstudaginn 14. desember lék Bjöllukórinn í aðventukaffi fyrir starfsfólk Sjávarklasans.

  • Jólatónleikar voru með hefðbundnu sniði í Tónstofunni. Þeir urðu samtals ellefu talsins helgarnar 8. til. 9. og 15. til 16. desember.

  • Kennsla á vorönn 2019 hófst fimmtudaginn 3. janúar.

  • Miðvikudaginn tuttugasta febrúar fékk Tónstofan heimsókn frá Maríu Kristínu Haraldsdóttur þroskaþjálfanema á 3. ári. Hún kom til að afla sér upplýsinga og til að fá hugmyndir er nýst gætu henni í vettvangsnámi í Hæfingastöðinni Bæjarhrauni.

  • Laugardaginn 2. mars var dagur Tónstofunnar (dagur tónlistarskólanna) haldinn hátíðlegur með opnu húsi að Stórhöfða 23. Dagskráin var sem hér segir:
    Klukkan 10:00 hófst kynning á skólanum.
    Klukkan 10:30 var opin æfing Bjöllukórsins og áhugasamra gesta sem stilltu saman strengi sína, sungu, léku og spunnu saman.
    Klukkan 11:30 var boðið upp á vöfflur og súkkulaði við undirleik orgelleikarans Gísla Björnssonar. Dagskránni lauk um klukkan 12:00.

  • Dagana 8. til 10. mars 2019 sótti undirrituð krakkajóga kennaranám „Childplay“ hjá Jógasetrinu. Kennari var Gurudass Kaur. Hún hefur kennt jóga og unnið með börnum í meira en 30 ár, er með BA í Education frá University of Massachusettes og er einnig Montessori kennari. Gurudass er hæfileikarík tónlistar- og söngkona og hefur gefið út fjöldamarga diska með möntrum og tónlist. Á námskeiðinu voru kenndar ýmsar skapandi og uppbyggjandi aðferðir sem auka næmi, styrkja samskiptahæfileika og leikgleði hjá börnum, unglingum og einnig fullorðnum sem vilja vekja leik barnsins innra með sér. Verður spennandi að aðlaga kennsluefnið að nemendahóp Tónstofunnar og nýta í starfi næsta vetrar.

  • Þriðjudaginn 19. mars fengum við heimsókn frá þremur konum frá Siglufirði sem starfa sem stuðningsfulltrúar fatlaðs drengs í 1. bekk. Drengurinn hefur mikinn áhuga á tónlist og vildu þær nýta hann sem best honum til ánægju og aukinnar vellíðunar.

  • Fimmtánda maí kom út grein eftir undirritaða í danskri þýðingu Jónu Þórsdóttur í Tidsskriftet Dansk Musikterapi 2019, Årgang 16, nr. 1 sem heitir „Tónstofa Valgerðar – en meget speciel musikskole i Island.“ Var mjög ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að kynna Tónstofuna.

  • Vortónleikar Tónstofunnar hófust laugardaginn 6. apríl. Síðustu tónleikarnir voru haldnir helgina 25. til 26. maí og urðu vortónleikarnir samtals tíu. Þrennir tónleikar voru haldnir í Guðríðarkirkju með tilheyrandi kostnaði og flutningi á hljóðfærum. Okkur var vel tekið í kirkjunni og fannst nemendunum sem fengu að spreyta sig þar mjög spennandi að koma fram í „stóru tónleikahúsi“ með mögnuðum hljómburði.

  • Síðasti kennsludagur vorannar 2019 var miðvikudagurinn 29. maí og skólaslit föstudaginn 31. maí.