Skólaárið og nemendafjöldi

Fyrsti kennsludagur haustannar 2021 var mánudagurinn 30. ágúst. Síðasti kennsludagur vorannar var föstudagurinn 27. maí að undanskildum uppbótartímum sem gefnir voru til 3. júní vegna fjarvista og veikinda kennara. Síðustu tónleikar annarinnar voru haldnir í Grafarvogskirkju sunnudaginn 29. maí. Við tóku starfsdagar 30. maí til 3. júní. Á starfsdögum funduðu kennarar, fóru yfir nemendahópinn, ræddu skóladagatal og viðfangsefni næsta vetrar, söfnuðu saman hljóðfærum frá kennslustöðvum Tónstofunnar þrifu þau og yfirfóru, ræddu lærdóm og áskoranir liðins vetrar og deildu áhugaverðu kennsluefni. Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við undirbúning fyrir næsta starfsár. Skólaárið 2021-2022 voru 138 – 143 (hreyfing á milli anna) nemendur í Tónstofunni skráðir í grunn- og miðnám í tónlistarsérkennslu. Á skólaárinu sóttu tuttugu nemendur námskeiðin „Tón-leikur“ og tuttugu nemendur sóttu námskeiðin „Radd-leikur“. Sumir þátttakenda Tón- og Radd-leiks sóttu jafnframt einkatíma. Í Bjöllukórnum voru tólf nemendur og sjö þeirra sóttu einnig einkatíma.

Kennarar, skólanefnd og annað starfsfólk

Á skólaárinu 2021-2022 störfuðu kennarar í um fjórum stöðugildum:
▪ Ari Agnarsson, starfshlutfall 43% kennarastaða.
▪ Ása Dóra Gylfadóttir, starfshlutfall 28% kennarastaða.
▪ Jóna Þórsdóttir, starfshlutfall 100% kennarastaða / deildarstjóri (Öskju/Klettaskóla/Lyngás).
▪ Marie Paulette Helene Huby, starfshlutfall 57% kennarastaða.
▪ Mínerva M. Haraldsdóttir, starfshlutfall 60% kennarastaða.
▪ Valgerður Jónsdóttir, starfshlutfall 100% skólastjóri og kennari.

Stofnandi og ábyrgðaraðili skólans er Valgerður Jónsdóttir.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir jafnframt hlutverki skólanefndar. Í nefndina var kosið á aðalfundi Foreldra- og styrktarfélagsins 8. nóvember 2021.
Í nefndinni sitja skólaárið 2021-2022:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri / ritari
Jóhanna Andrea Jónsdóttir, meðstjórnandi
Ottó Leifsson, meðstjórnandi
Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara

Um ársreikningaskil sá Haraldur H. Helgason, viðskiptafræðingur hjá Aðalbókun bókhaldsstofu ehf.
Um endurskoðun ársreiknings sá Hjördís Ýr Ólafsdóttir hjá KPMG ehf.
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, starfshlutfall 25% ráðgjafi og kynningarfulltrúi.
Um ræstingu sá SBH þrif.
Annað starfsfólk kemur ekki að rekstri skólans.

Styrkir á skólaárinu 2021-2022

Á starfsárinu þökkum við sérstaklega umhyggjusemi og trygglyndi Súsönnu Ernst Friðriksdóttur sem gladdi okkur með góðri gjöf um jól.

Í maí 2021 veitti Öryrkjabandalagið Tónstofunni styrk til kaupa á spjaldtölvum og styrk til að ýta úr vör Listasmiðju Tónstofunnar. Við erum innilega þakklát Öryrkjabandalaginu fyrir stuðninginn. Spjaldtölvurnar voru vel nýttar á skólaárinu, sérstaklega við notkun smáforritanna Mussila og Garageband. Starfsemi Listasmiðjunnar lá niðri á skólaárinu vegna Covid en mikil tilhlökkun tengist þeim möguleikum sem hún býr yfir og kannaðir verða á næsta skólaári.

Innilegar þakkir færum við öllu því góða fólki sem ekki er talið upp sérstaklega hér að ofan en sem í nafni stofnana, samtaka eða sem einstaklingar hafa styrkt Tónstofuna og eflt til dáða á liðnum árum. Upplýsingar um viðurkenningar og styrki liðinna ára má sjá á heimasíðu skólans.

Helstu viðfangsefni skólaársins 2021-2022

Líkt og tvö undangengin skólaár hafði Covid-19 töluverð áhrif á starfsemina. Nemendahópurinn er viðkvæmur og treysti sér stundum ekki til að mæta. Sumum nemendum var haldið heima af forráðamönnum og kennarar og nemendur fóru í sóttkví eða fengu Covid.

  • Skólaárið hófst með sameiginlegum starfsdegi tónlistarskólanna 20. ágúst þar sem m.a. var kynnt nýtt kennsluefni. Fundurinn var á Teams.

  • Skólanefndin fundaði 23. ágúst til að ræða svar mennta- og menningarmálaráðuneytisins dagsett 22. júní 2021 við erindi Tónstofunnar og skólanefndarinnar frá 17. mars. 2021.

  • Fundað var með framkvæmdastjóra Listar án landamæra þriðjudaginn 24. ágúst til að ræða mögulega þátttöku Tónstofunnar í hátíðinni. Niðurstaða fundarins var sú að Tónstofan yrði með blandaða dagskrá á lokahátíðinni 7. nóvember. Fundað var með forstöðumanni frístundaheimilisins Öskju 25. ágúst til að ræða fyrirkomulag samstarfsins en komið höfðu upp áhyggjur vegna skorts á húsnæði.

  • Kennsla hófst mánudaginn 30. ágúst.

  • Föstudaginn 17. september kom Inga Björk Margrét Bjarnadóttir í heimsókn í Tónstofuna. Hún er verkefnisstjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Þroskahjálp og hafði verið boðið á kynningarfund. Á þeim fundi var flutt erindi um starfsemi Tónstofunnar, áhyggjur voru viðraðar af framtíð Tónstofunnar ef stoðir hennar yrðu ekki styrktar, og Gísli Björnsson (nemandi) lék fyrir hana á orgel. Inga Björk var áhugasöm og hrifin af starfseminni en kvað aðild að Þroskahjálp vera nauðsynlega til að fá stuðning þeirra í barátunni fyrir framtíð Tónstofunnar.

  • Foreldra- og styrktarfélag Tónstofunnar sótti um aðild að Landssamtökunum Þroskahjálp 1. október 2021. Félagið telur að aðild að Landssamtökunum Þroskahjálp geti aukið þann slagkraft sem þarf í baráttu Tónstofunnar fyrir jafnrétti til handa nemendahópnum sem glímir við mismunun bæði hjá ríki og borg og stendur því höllum fæti.

  • Nítjánda svæðisþing tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu var haldið 6. október 2021 og tóku allir kennarar Tónstofunnar þátt í þinginu. Dagskráin var mjög fræðandi. Fjallað var um Tónlistarskóla sem lærdómssamfélag, starfsþróunarmöguleika í LHÍ, niðurstöður könnunar og umræðuhópa um endurskoðun á aðalnámskrá tónlistarskóla frá svæðisþingum tónlistarskóla 2020, skipulag kennslu – markmiðssetningu, gerð kennsluáætlana og nemendamiðað nám, og tónlistarskóla fyrir alla / kennslu nemenda með sérþarfir – áskoranir og tækifæri.

  • Lokahátíð Listar án landamæra sem fara átti fram sunnudaginn 7. nóvember í Ráðhúsi Reykjavíkur var aflýst vegna aðstæðna í samfélaginu. Listafólk Tónstofunnar sem koma átti fram á hátíðinni tók atriðin sín upp og þeim var síðan deilt á fésbókarsíðu Tónstofunnar. Því miður fengu atriðin enga kynningu á vefmiðlum Listar án landamæra!

  • Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar var haldinn mánudaginn 8. nóvember og er fundargerðin svohljóðandi.
    Fundargerð aðalfundar Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar árið 2021
    Aðalfundur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofu Valgerða / skólanefndar var haldinn mánudaginn 8. nóvember kl. 18:30 í Tónstofunni að Stórhöfða 23.
    Mættir voru úr stjórn félagsins: Rut Ríkey Tryggvadóttir, Gunnhildur Gísladóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Ásthildur Gyða Torfadóttir, Ottó Leifsson og Valgerður Jónsdóttir. Fjarverandi var Jóhanna Andrea Jónsdóttir.
    Utan stjórnar mætti Sigurjón Högnason, skoðunarmaður reikninga.
    Dagskrá aðalfundarins tók mið af almennum lögum um fundarsköp og var sem hér segir:

    1. Fundarsetning og kosning fundarstjóra.

    2. Skýrsla stjórnar.

    3. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

    4. Ákvörðun félagsgjalda.

    5. Lagabreyting.

    6. Kosning stjórnar.

    7. Kosning skoðunarmanna reikninga.

    8. Fyrirspurnir og umræður.

    1. Formaður stjórnar, Rut Ríkey Tryggvadóttir setti fundinn, las upp dagskrá fundar og bauð Gerði Steinþórsdóttur að taka að sér fundarstjórn. Valgerður Jónsdóttir tók að sér að rita fundargerð.

    2. Rut Ríkey las upp skýrslu stjórnar. Skýrslan var yfirlit yfir helstu umræðuefni funda og aðgerðir starfsársins.
    Eftirfarandi kom meðal annars fram:
    o Fimm stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu 2020-2021.
    o Breytingar voru gerðar á frístundakerfi Reykjavíkurborgar og ullu þær forráðamönnum nokkrum vanda.
    o Vegna Covid var Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskólanna breytt í rafrænt form undir heitinu Net-Nótan. Þetta gerði Tónstofunni kleift að taka þátt í hátíðinni í fyrsta sinn. Myndbönd sem tónlistarskólarnir gerðu til að kynna skólastarfið eru aðgengileg á vefsíðu N4 og á netmiðlum tónlistarskólanna.
    o Kröfur Reykjavíkurborgar um skil á endurskoðuðum ársreikningum eru íþyngjandi fyrir Tónstofuna sem og aðra tónlistarskóla í Reykjavík. Heildarkostnaður Tónstofunnar vegna þessarar kvaðar nemur um 1.100.000 króna. Hækkun rekstrarkostnaðar sem af þessu hlýst m.a. var mætt með hækkun skólagjalda.
    o Leitað var leiða til að mæta tekjufalli vegna Covid. Fékk Tónstofan stuðning frá Vinnumálastofnun vegna kennara sem þurftu að fara í sóttkví og lækkunar skólagjalda af þeim sökum.
    o Tónstofan fékk tvo styrki frá Öryrkjabandalaginu á starfsárinu. Annars vegar 500 þúsund krónur til að kaupa spjaldtölvur sem nýttar eru til kennslu á smáforritum eins og Mussila, en Tónstofan hefur skólaaðgang að því forriti og gagnast það nemendahópnum afar vel. Og hins vegar 400 þúsund krónur sem notaðar verða til að ýta listasmiðjunni úr vör.
    o Í desember 2020 fékk Tónstofan einnig góða gjöf frá Súsönnu Ernst Friðriksdóttur.
    o Skýrsla sem kom út á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í nóvember 2020 og fjallar um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskólanna olli miklum vonbrigðum þar sem Tónstofunnar er ekki getið í lista yfir þau námsframboð sem í boði eru. Til að mótmæla þessu og sækja um styrk sambærilegan þeim sem Myndlistarskólinn í Reykjavík og Fjölmennt fá ritaði stjórnin bréf til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra 17. mars 2021. Í svarbréfi sem barst 22. júní er þakkað fyrir ábendinguna en bent á að unnið væri að breyttu verklagi í tengslum við samningsgerð við einkaaðila og að ráðuneytið myndi ekki ganga frá samningum eða styrkjum til einkaaðila nema að undangengnu opnu auglýsingaferli í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórnin er því engu nær. Hún bíður eftir nýjum mennta- og menningarmálaráðherra og mun þá óska eftir fundi sem ekki fékkst með Lilju Alfreðsdóttur.
    o Rætt var um möguleika til að auka sýnileika Tónstofunnar og Bjöllukórsins, en Covid hefur haft hamlandi áhrif á uppbyggingu starfsins t.d. fyrirhugaðan stofnfund nemendafélags, ferðalög, listasmiðju og tónleikahald.
    o Valgerður var með fræðsluerindi í LHÍ í janúar. Erindið var innlegg í námskeiðið „Skóli án aðgreiningar“ sem haldið var af Elínu Önnu Ísaksdóttur aðjúnkts og fagstjóra klassískrar söng- og hljóðfærakennslu á BA- og MA-stigi. Stjórnin ræddi á fundum sínum skort á skipulagðri menntun sem gæti gert tónlistarkennara hæfari til að starfa eftir lögum og regluverki um skóla án aðgreiningar. LHÍ þarf að taka sig á í þessum efnum. Væri óskandi að Tónstofan gæti komið að því máli sem og endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla sem er í undirbúningi.
    o Tveir aðrir fyrirlestrar voru haldnir á starfsárinu, í Tónlistarskóla Húsavíkur 26. og 27. maí sl. og í Tónlistarskóla Árnesinga 26. ágúst sl. Við vonumst til þess að fyrirlestrarnir hvetji þátttakendur til að tileinka sér kennslu án aðgreiningar í skóla margbreytileikans.
    o Framtíð og fjárhagsstaða Tónstofunnar var rædd á fundum starfsársins. Þjónustusamningur Reykjavíkurborgar við Tónstofuna kveður á um að nemendastundir séu að lágmarki 1.767 á samningstíma. Nemendastundir Tónstofunnar hafa ekki farið niður fyrir 2.000 síðastliðin 6 ár. Þjónustusamningurinn samræmist því engan veginn því starfi sem fram fer í Tónstofunni (hefur reyndar aldrei gert það) og hamlar því vexti og von um bjarta framtíð. Tónstofan getur ekki líkt og aðrir skólar fjölgað í nemendahópnum með samkennslu (og bætt þar með rekstrarstöðu sína líkt og aðrir tónlistarskólar geta gert) og kvaðir um stöðluð próf sem nemendahópurinn getur ekki uppfyllt heldur honum á grunnstigi. Núverandi þjónustusamningur er til eins árs.
    o Umsókn Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar um aðild að Þroskahjálp var samþykkt 11. október 2021. Áður hafði Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir verkefnisstjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Þroskahjálp komið á kynningarfund í Tónstofunni. Á þeim fundi var flutt erindi um starfsemi Tónstofunnar, áhyggjur voru viðraðar af framtíð Tónstofunnar ef stoðir hennar yrðu ekki treystar, og Gísli Björnsson (nemandi) lék fyrir hana á orgel. Inga Björk var áhugasöm og hrifin af starfseminni en kvað aðild að Þroskahjálp vera nauðsynlega til að fá stuðning þeirra í barátunni fyrir framtíð Tónstofunnar.
    o Starfshlutföll kennara eru sem hér segir, en viðbúið er að starfshlutföllin sveiflist eitthvað til á yfirstandandi skólaári. Nemendahópurinn er viðkvæmur og stöðugleiki hans því sveiflukenndur: Valgerður Jónsdóttir 100% kennarastaða og starf skólastjóra, Jóna Þórsdóttir kennari 100%, Mínerva M. Haraldsdóttir kennari 60%, Marie Paulette Helene Huby kennari 57%, Ari Agnarsson kennari 43%, Ása Dóra Gylfadóttir kennari 28%. Ása Dóra Gylfadóttir er nýr kennari Tónstofunnar og fögnum við þeirri nýliðun.


    Rut Ríkey var þakkað fyrir góða skýrslu stjórnar. Skýrslan var borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

    3. Gunnhildur Gísladóttir gjaldkeri kynnti reikninga félagsins og bar þá upp til samþykktar. Þeir vor samþykktir einróma.

    4. Ákvörðun félagsgjalda. Eftir nokkra umræðu ákvað fundurinn að hækka félagsgjöldin í krónur fjögur þúsund á ári. Félagsgjöldin eru valfrjáls greiðsla og innheimtist að vori.

    5. Lagbreyting. Breyting á 4. grein laganna var kynnt og borin upp til samþykktar. Lagabreytingin þótti sjálfsögð og eðlileg og var samþykkt einróma.

    6. Næsti liður var kosning stjórnar. Ásthildur Gyða Torfadóttir sagði sig úr stjórninni. Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi setu. Ásthildi Gyðu voru þökkuð góð störf í þágu stjórnarinnar á liðnum árum og henni óskað velfarnaðar. Lög félagsins kveða á um sjö stjórnarmenn. Að tillögu endurskoðanda reikninga, Sigurjóns Högnasonar, fól aðalfundur stjórn félagsins að finna nýjan stjórnarmann.

    7. Kosning skoðunarmanna reikninga. Skoðunarmenn félagsins þau Sigurjón Högnason og Anna Björg Halldórsdóttir gáfu áfram kost á sér og voru þeim þökkuð vönduð störf á liðnum árum.

    8. Síðasti liður þessa aðalfundar voru fyrirspurnir og umræður.


    Sigurjón fræddi fundarmenn um ný lög er varða Félög til almannaheilla sem starfa skv. lögum nr. 110/2021 og skráð eru í almannaheillafélagaskrá. Félög til almannaheilla sem starfa samkvæmt ofangreindum lögum teljast þau félög sem stofnað er til eða starfrækt eru í þeim tilgangi að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum. Skráning félags til almannaheilla í almannaheillafélagaskrá er valkvæð og er ætluð þeim félögum þar sem stærð, umfang eða eðli starfseminnar felur í sér þær skyldur og réttindi sem í lögunum er kveðið á um. Töldu fundarmenn að Tónstofan hefði ekki hag af að fara á þessa skrá að svo komnu máli. Mun Sigurjón sem endurskoðandi reikninga halda félaginu upplýstu um breytingar á skattalögum sem varðað gæti starf og skyldur Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar.

    Að lokum tók Valgerður til máls. Hún talaði um nemendafjöldann sem á haustönninni telur 137. Nefndi Covid sem heldur áfram að setja mark sitt á skólastarfið með ýmsu móti. Forráðamenn veikjast og nemendur eru settir í sóttkví, kennarar eru settir í smitgát, samsetningu hópa er breytt o.s.frv.

    Lokahátíð Listar án landamæra féll niður en hún átti að vera laugardaginn 7. nóvember. Þetta var ákvörðun stjórnar listahátíðarinnar og kom hún með litlum fyrirvara. Aðalæfing laugardagsins 6. nóvember var haldin í Tónstofunni eigi að síður og atriði nemendahópsins voru tekin upp. Tónstofan hefur klippt myndböndin til og sent til Listar án landamæra. Nemendahópurinn býður spenntur eftir því að sjá þau birt á samfélagsmiðlum.

    Framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030 var lögð fram í skóla- og frístundaráði 12. janúar 2021. Hlutverk starfshópsins er að setja fram innleiðingaráætlun þar sem aðgerðir eru settar fram í forgangsröð. Aðgerðir skulu vera kostnaðarmetnar og þeim raðað í tímasetta áfanga. Innleiðingaráætlunin verður lögð fyrir skóla- og frístundaráð eigi síðar en í desember 2021. Starfshópurinn telur mikilvægt að virkja vettvang og ákvað á fundi sínum 13. september 2021 að leita eftir hugmyndum úr hópi stjórnenda hvers málaflokks sem stefnan tekur til. Fjórtánda október 2021 sendi Tónstofan, ábendingar, athugasemdir tillögur og viðhorf Tónstofu Valgerðar varðandi framtíðarskipanina til starfshóps borgarinnar. Svo virðist sem Tónstofan standi sig vel á flestum sviðum sem nýja stefnan tekur til. Tónstofan telur sig einnig geta gefið góð ráð byggð á jafnréttishugsjóninni, inngildingu og brautryðjendastarfi í tónlistarmenntun fyrir alla sl. 35 ár.

    Valgerður lagði til að Foreldra- og styrktarfélagið myndi herja af fullum þunga á menntamálaráðherra um leið og fyrir lægi hver hann yrði.

    Varðandi fyrirhugaða stofnun nemendafélags þá nefndi Valgerður að hún hefði ekki haft orku til að ýta því úr vör né heldur listasmiðjunni góðu sem ef vel tækist til myndi vaxa í allar áttir og gera lukku. Covid hefur sett skorður og dregið úr athafnagleðinni ásamt persónulegum verkefnum sem tekið hafa tíma og þurft hefur að sinna.

    Að lokum þakkaði Valgerður Jónsdóttir, stofnandi og ábyrgðarmaður Tónstofunnar, stjórn- Foreldra- og styrktarfélagsins / skólanefndinni og endurskoðendum fyrir elskusemi, trygglyndi og óeigingjarnan stuðning á liðnum árum.

    Valgerður Jónsdóttir, ritari á aðalfundi

  • Jólatónleikaröð Tónstofunnar að þessu sinni voru svokallaðir örtónleikar þar sem að hámarki 5 nemendur léku saman og einungis tveir aðstandendur fylgdu hverjum nemanda. Þetta fyrirkomulag krafðist aukinnar vinnu af hálfu skólastjóra og kennara þar sem tónleikarnir urðu alls 18 að tölu, en það var samhljóma álit að fyrirkomulagið hefði tekist sérlega vel. Nemendahópnum gagnaðist það sérstaklega þar sem allir fengu meira svigrúm til að láta ljós sitt skína og takmarkaður áheyrendafjöldi stuðlaði að vellíðan nemendanna.

  • Vorönnin hófst mánudaginn 3. janúar. Starf vorannar var hefðbundið en í fremur lágum gír sökum Covid veikinda hjá nemendum og kennurum. Einnig má kenna um viðbrögðum undirritaðrar við því sem hún telur mismunun, skort á skilningi, stuðningi og viðurkenningu á starfseminni. Bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Orð eins og geðþóttaákvarðanir, útilokun, vanþekking og jafnvel hundsun lýsir viðbrögðum stjórnvalda og umfjöllun einstakra samtaka og stofnana í þessum málaflokki og umræðunni um möguleika fólks með fötlun til menntunar. Geðþóttaákvarðanir munu væntanlega alltaf ríkja í stjórnsýslunni en berjast má við meðvitaða eða ómeðvitaða hundsun/vanþekkingu með kynningarátaki.

  • Föstudaginn 21. janúar komu Sigfríður Björnsdóttir og Þorbjörg Saga frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar í heimsókn. Starfsemi Tónstofunnar var kynnt í um tveggja stunda spjalli, glærusýningu og upptökum af leik nemenda. Var fræðslan vonandi hvati til inngildingar í starfi Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

  • Dagur tónlistarskólanna / Tónstofunnar var laugardaginn 5. febrúar. Á liðnum árum hefur Bjöllukór Tónstofunnar verið í framvarðarsveit skólans þennan dag og tekið á móti gestum með leik og söng. Í ár líkt og í fyrra nýttum við daginn og febrúarmánuð til að kynna á rafrænan hátt starfsemi Tónstofunnar og mikilvægi skólans í íslensku samfélagi sem og í flóru þeirra tónlistarskóla landsins sem hún tilheyrir.

  • Þann 7. febrúar sl. sendi Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar beiðni um fund til Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra. Beiðnin var ítrekuð átjánda og 29. mars sl. Engin svör hafa borist.
    Erindið var: að fá leiðsögn, kynna starfsemi Tónstofu Valgerðar og fara yfir samskipti Tónstofunnar við ráðuneytið á liðnum árum. Studd m.a. af alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, stjórnsýslulögum og þingsályktun um menningarstefnu sem samþykkt var á Alþingi 6. mars 2013, þar sem mennta- og menningarmálaráðherra er falið að starfa samkvæmt stefnu íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs og tryggja aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum, leitaði Tónstofa Valgerðar enn á ný eftir stuðningi frá ráðherra og ráðuneyti. Í bréfi til ráðherra stendur:
    Undirrituð er meðvituð um fyrirhugaða færslu málaflokka á milli ráðuneyta (Fjölmennt) en óskar eftir því eigi að síður að sitja við sama borð og Myndlistaskólinn í Reykjavík (og Fjölmennt) hvað varðar stuðning frá ráðuneytinu vegna kennslu nemenda með fötlun.
    Í upphafi 35. starfsárs Tónstofunnar, skólaárið 2021-2022, voru 71 af 138 nemendum Tónstofunnar 20 ára og eldri eða um 50% nemendahópsins. Tónstofan hefur aldrei fengið styrk frá ráðuneytinu vegna kennslu þessa nemendahóps og Tónstofunnar er ekki getið í skýrslunni Tækifæri ungs fólks með þroskahömlun og skyldar raskanir að loknu námi á starfsbraut, sem dagsett er í nóvember 2020.

    Tillögur til úrbóta sem nefndar eru í kaflanum Aðgerðaáætlun verða ekki tíundaðar hér en vel hefði mátt geta Tónstofunnar því hún er sannarlega námsframboð að fullu sambærilegt við það sem Fjölmennt og Myndlistaskólinn í Reykjavík býður. Jafnframt er ýmislegt í regluverki ráðuneytisins hvað varðar tónlistarskóla sem heftir og mismunar nemendahópi Tónstofunnar og vert er að vekja athygli á.
    Það var með von í brjósti um að fá tækifæri til að kynna fyrir nýjum ráðherra starf Tónstofunnar, sem er einstök perla á landsvísu og þó víða væri leitað, sem óskað var eftir viðtali.

    Þegar þetta er ritað í júní 2022 hafa enn engin svör borist.

  • Föstudaginn 13. maí hélt undirrituð erindi fyrir 450 manns á vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar. Á ráðstefnunni var fjallað um virkni og velferð barna með fatlanir. Erindi undirritaðrar bar yfirskriftina Virkni og velferð í tónlistarnámi. Þar fékkst tækifæri til að segja frá: Tónstofu Valgerðar, músíkbarninu sem blundar í okkur öllum, mikilvægi tónlistar til að auka lífsgæði fólks, nemendahópnum og virkni hans og velferð í tónlistariðkun sinni.

  • Eins og beðið var um í bréf frá Helga Grímssyni sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs dagsettu 16. maí 2022, kom Tónstofan á framfæri athugasemdum í 7 liðum við þeirri ráðagerð skóla- og frístundasviðs að leggja til við skóla- og frístundaráð og borgarráð að núgildandi samningar við tónlistarskóla í Reykjavík vegna neðri stiga tónlistarnáms verði framlengdir um eitt ár með viðauka þar sem að ekki liggur fyrir fjárheimild til breytinga.
    Tónstofan lýsti yfir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun skóla- og frístundasviðs að halda þjónustusamningnum óbreyttum á næsta skólaári og færði rök fyrir vonbrigðum sínum í liðunum sjö sem lesa má í skjalinu Forsaga og starfsáætlun Tónstofunnar skólaárið 2022-223.

  • Vortónleikaröð Tónstofunnar hófst 15. maí og henni lauk 29. maí með tvennum stórtónleikum í Grafarvogskirkju þar sem einkum eldri nemendur Tónstofunnar komu fram. Alls urðu vortónleikarnir tíu talsins, sannkölluð uppskeruhátíð sem gaf bæði lærdóm og gleði inn í hjörtu allra viðstaddra. Tónleikana í Grafarvogskirkju hefði mátt auglýsa um víðan völl og á þá hefði mátt bjóða framvarðasveit ráðamanna því að á uppskeruhátíðum og í fögnuðinum miðjum, skynja menn best mikilvægi starfsins. Njótið yndislegra mynda sem finna má á heimasíðu og á fésbókarsíðu Tónstofunnar.

  • Síðasti kennsludagur Tónstofunnar vorið 2022 samkvæmt skóladagatali var föstudagurinn 27. maí, en aukatímar/uppbótatímar voru kenndir til 3. júní.

  • Vikuna 30. maí til 3. júní tóku einnig við starfsdagar. Á starfsdögum funduðu kennarar, fóru yfir nemendahópinn, ræddu skóladagatal og viðfangsefni næsta vetrar, söfnuðu saman hljóðfærum frá kennslustöðvum Tónstofunnar þrifu þau og yfirfóru, ræddu lærdóm og áskoranir liðins vetrar og deildu áhugaverðu kennsluefni. Í júní starfar skólastjórinn við að ljúka skýrslugerð og samantekt fyrir Reykjavíkurborg sem og við undirbúning fyrir næsta starfsár.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starf Tónstofunnar frekar geta farið á rafræna miðla hennar:

www.tonstofan.is
www.instagram.com/tonstofan
www.facebook.com/tonstofavalgerdar

Vinátta, gleði og vinnusemi einkennir starfið í Tónstofunni frá degi til dags og var engin undantekning þar á þetta skólaár þrátt fyrir áskoranir af ýmsu tagi er mættu kennurum, nemendum og öðrum aðstandendum Tónstofunnar. Undirrituð þakkar kennurum Tónstofunnar, skólanefndinni, velunnurum, nemendum og forráðamönnum sem og ráðamönnum í starfsstöðvum Tónstofunnar hjartanlega fyrir gjöfult samstarf á krefjandi skólaári. Við vonumst svo til að geta fagnað árunum 35 enn frekar þegar ýtt verður úr vör á næsta skólaári.

Skráð í júní 2022.
Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri
Tónstofa Valgerðar Stórhöfða 23
110 Reykjavík