NEMENDAFJÖLDI OG SKÓLAÁRIÐ

Fyrsti kennsludagur haustannar 2017 var mánudagurinn 28. ágúst. Síðasti kennsludagur var föstudagurinn 1. júní. 2018. Hundrað tuttuguogátta  nemendur voru skráðir í skólann í lok vorannar 2018. Yngsti nemandinn er fæddur 2011 sá elsti er fæddur 1958. Þrjátíu nemendur Tónstofunnar sóttu einkatíma sína og hóptíma í frístundaheimilinu Öskju í Safamýri. Foreldrar nemendanna, aðstandendur frístundaheimilisins, tónlistarkennari þeirra Jóna Þórsdóttir, sem og aðrir aðstandendur Tónstofunnar voru sem fyrr mjög ánægðir með samstarfið sem framhald verður á næsta skólaár.

KENNARAR, SKÓLANEFND OG ANNAÐ STARFSFÓLK

Við skólann störfuðu 7 kennarar skólaárið 2017-2018:
Valgerður Jónsdóttir 100% starfshlutfall kennara. 
Jóna Þórsdóttir 100% starfshlutfall kennara.
Marie Huby 80% starfshlutfall kennara.
Ásrún I. Kondrup, 50% starfshlutfall kennara.
Kirstín Erna Blöndal, 25% starfshlutfall kennara.
Rakel Pálsdóttir, 25% starfshlutfall kennara.
Ari Agnarsson, stundakennari/verktaki
Skólastjóri og ábyrgðaraðili skólans er Valgerður Jónsdóttir. Ásamt fullri kennarastöðu gegndi hún starfi skólastjóra, ræstitæknis, ritara og móttökustjóra.
Engin yfirbygging er í skólanum og rekstrarkostnaði hans því haldið í lágmarki.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar gegnir hlutverki skólanefndar. 
Í henni sátu skólaárið 2017-2018:
Rut Ríkey Tryggvadóttir, formaður
Gerður Steinþórsdóttir, varaformaður
Gunnhildur Gísladóttir, gjaldkeri
Sólborg Bjarnadóttir, ritari
Dóra Eydís Pálsdóttir, meðstjórnandi
Ásthildur Gyða Torfadóttir, meðstjórnandi
Valgerður Jónsdóttir, fulltrúi kennara.
Um endurskoðun bókhalds og ársreikningaskil sér Haraldur H. Helgason, viðskiptafræðingur
Aðalbókun bókhaldsstofa ehf.
haraldur@aðalbokun.is

STYRKIR Á SKÓLAÁRINU 2017– 2018

Á skólaárinu 2017 - 2018 þökkum við sérstaklega Súsönnu Ernst Friðriksdóttur, Önnu Björgu Halldórsdóttur, Foreldra- og styrktarfélagi Tónstofunnar sem og stjórn Styrktar- og minningarsjóðs Bjöllukórs Tónstofu Valgerðar sem glöddu okkur með velvild og góðum gjöfum sem nýttust vel í skólastarfinu.

Innilegar þakkir færum við einnig öllu því góða fólki sem ekki er talið upp sérstaklega hér að ofan en sem í nafni stofnana, samtaka eða sem einstaklingar hafa styrkt Tónstofuna og eflt til dáða á liðnum árum.

HELSTU VIÐFANGSEFNI SKÓLAÁRSINS  2017-2018

Það var yfirlýst stefna skólaársins að reyna að sigla lygnan sjó, að vinna úr ævintýrum afmælisársins sem krafist höfðu ótæpilegrar vinnu og að þoka áfram þeim verkefnum sem enn var ólokið.

  • Tuttugasta og áttunda ágúst var ýtt úr vör í Tónstofunni. Í upphafi skólaársins voru 125 nemendur skráðir í skólann. Bjöllukórinn, sönghópurinn, hljómsveitin og nýir og gamlir nemendur á öllum aldri fylltu stofur á Stórhöfða og skólastofuna í frístundaheimilinu Öskju með leikgleði sinni. Spenntir kennarar brettu upp ermarnar tilbúnir í tónlistarævintýri vetrarins.

  • Nítjánda nóvember tók Davíð Þór Torfason grunnpróf í píanóleik. Davíð Þór stóð sig afburða vel og var undirrituð og foreldrar Davíðs ákaflega stoltir af honum. Davíð Þór er fyrsti nemandi Tónstofunnar til að taka grunnpróf.

  • Þrítugsafmælis skólans og tvítugsafmælis Bjöllukórsins var áfram fagnað og nú með útgáfu Hljómvangs nýja geisla- og mynddisksins sem kom í hús 23. desember 2017. Tólf íslensk þjóðlög voru hljóðrituð af Hafþóri Karlssyni hljóðmanni. Við þökkum honum, Gunnari Gunnarssyni og Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur innilega fyir samstarfið við gerð Hljómvangs. Á mynddiskinum er upptaka frá afmælistónleikum Tónstofunnar í Salnum frá 28. maí 2017. Vinnu við Hljómvang er ekki lokið enda verkefnið þeirrar gerðar að gera má ráð fyrir að það fylgi Tónstofunni um ókomin ár. (Sjá nánar um Hljómvang á heimasíðunni).

  • Aðalfundur Foreldra og styrktarfélags Tónstofu Valgerðar var haldinn í húsnæði Tónstofunnar að Stórhöfða 23 mánudaginn 13. nóvember 2017. Fundargerðin rituð af Þorleifi Haukssyni fylgir hér. Við þökkum honum innilega fyrir ómetanlegan stuðning og frábærar fundargerðir sem segja sögu skólans sl. 17 ár.

  • Bjöllukórinn tók þátt í Aðventuhátíð Menningarhúsanna í Kópavogi og lék í Gerðarsafni laugardaginn 2. desember.

  • Kærleikskúla SLF var afhent á Kjarvalsstöðum 6. desember og lék Bjöllukórinn við athöfnina. Bjöllukórinn er afar þakklátur fyrir að hafa í gegnum árin fengið tækifæri til að taka þátt í þessari hátíðlegu athöfn.

Mann­rétt­inda­skrif­stofa Reykja­vík­ur­borg­ar hlaut Kær­leiks­kúlu árs­ins, Ūgh & Bõögâr eft­ir Egil Sæ­björns­son fyr­ir mik­il­vægt fram­lag í þágu fatlaðs fólks. En skrifstofan gerði samkomulag við Lands­sam­tök­in Þroska­hjálp vegna not­endaráðs fatlaðs fólks. Þykir samkomulagið sýna mikilsverðan skilning og vilja til þess að tryggja að raddir fólks með þroskahömlun heyrist og að það fái þannig raunverulegt tækifæri til að taka þátt í að móta samfélagið. Það er því mat stjórn­ar Styrkt­ar­fé­lags­ins að Mann­rétt­inda­skrif­stof­an hafi með sam­komu­lag­inu sýnt mik­il­vægt for­dæmi sem geti orðið sveit­ar­fé­lög­um til fyr­ir­mynd­ar og leiðbein­ing­ar um hvernig best sé að standa að því að upp­fylla ákvæði um sam­ráð í samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi fatlaðs fólks.

„Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hóf útgáfu Kærleikskúlunnar árið 2003 og eru kúlurnar nú orðnar þrettán talsins. Nafn kúlunnar er táknrænt en markmiðið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna. Allur ágóði rennur til starfsemi Reykjadals, sumar- og helgardvalar Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Mosfellsdal.“

  • Bjöllukórinn lék á aðventukvöldi 12. desember fyrir Rebekkustúku í húsi Oddfellow. Var það hátíðleg stund og Bjöllukórinn lék af stakri prýði öllum til mikillar ánægju.

  • Ellefu jólatónleikar voru haldnir í Tónstofunni helgarnar 9. til 10. og 16. til 17. desember. Nemendurnir stóðu sig afburðavel og glöddu alla viðstadda með leik og söng.

  • Kennsla á vorönn 2018 hófst 3. janúar.

  • Rakel Pálsdóttir var ráðin í 25% kennsluhlutfall og nýir nemendur voru teknir inn af biðlista eftir páska.

  • Laugardaginn 17. mars flutti undirrituð erindi um Tónstofuna á málþingi Einhverfusamtakanna sem fjallaði um tómstundir.

  • Í maí voru hefðbundnir vortónleikar í Tónstofunni alls ellefu að tölu. Tónleikarnir fór fram í salnum á Stórhöfða og í frístundaheimilinu Öskju. Við erum stolt af nemendunum sem komu fram sem einsöngvarar, einleikarar og tónskáld og einnig í hljómsveitum og kórum.31. Var sungið og leikið af hjartans list viðstöddum til mikillar ánægju og gleði

  • Síðasti kennsludagur í Tónstofunni var föstudagurinn 1. júní.

LOKAORÐ

Með Foreldra- og styrktarfélagið í fararbroddi var unnið að því að fá viðurkenningu menntamálaráðuneytisins á starfsemi Tónstofunnar. Sá áfangi náðist árið 2004 og er Tónstofan viðurkenndur tónlistarskóli. Tónstofan hefur nú verið rekin í 31 ár. Starfsemin hefur verið farsæl og Tónstofan notið fjölda viðurkenninga og styrkja eins og áður er getið.

Líkt og síðastliðin ár er það með gleði og þakklæti í hjarta fyrir velgengni, velvilja og ómetanlegan stuðning sem starfsáætlun næsta skólaárs og yfirlit skólaársins 2017-2018 er skrifað. Síðan Steinunn Finnbogadóttir heitin lagði undirritaðri lið hefur Tónstofan vaxið og dafnað og draumsýnin sem lagt var upp með fyrir þrjátíu árum síðan og byggði á jafnrétti til náms lifir enn. Tónstofan er í dag mikilvæg menntastofnun og við teljum hana prýði íslensks samfélags.

Um leið og lærdómur er dreginn af reynslu síðasta vetrar undirbúa aðstandendur skólans næsta skólaár. Með góðan bakhjarl í Foreldra- og styrktarfélaginu, velvilja samstarfsaðila, dugandi kennara og áhugasaman nemenda- og foreldrahóp verða fundnar sæmandi lausnir á áskorunum ef upp koma.

Fyrir hönd Foreldra- og styrktarfélags Tónstofunnar/skólanefndar, þakkar undirrituð velgjörðafólki, styrktaraðilum, aðstandendum Öskju, Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, skólaskrifstofum nágrannasveitarfélaganna sem og öllum nemendahópnum og aðstandendum hans innilega fyrir gefandi og ánægjulega samvinnu á 31 starfsári skólans.

Dr. Valgerður Jónsdóttir, skólastjóri